Hver er Magnús Orri Schram?

Afar mínir tveir Magnús og Björgvin fæddust báðir í Reykjavik á fyrri hluta 20. aldar en áttu um margt ólíka ævi. Björgvin starfaði lengi sem stórkaupmaður og var mikill stuðningsmaður frjálsra viðskipta. Hann taldi mikilvægt að gera hverjum manni kleift að njóta afraksturs vinnu sinnar og dugnaðar.

Magnús var einn fjögurra sona einstæðrar móður úr Þingholtunum þar sem heimilistekjurnar voru drýgðar með blaðasölu. Með útsjónarsemi tókst þeim að ná endum saman. Afi taldi mikilvægt að allir ættu að hafa jöfn tækifæri í lífinu og að við Íslendingar ættum að gæta vel að þeim efnaminni. Þannig fylgdi lambakjötinu á sunnudögum oft lítið erindi um misjafnar aðstæður fólks til að sækja sér menntun.


Ég vil vinna að framgangi stjórnmálaflokks sem lítur til sjónarmiða beggja við mótun stefnu sinnar. Velferð og jafn réttur allra til þjónustu verður ekki til án verðmætasköpunar, og frelsis til athafna. Á sama hátt byggir sterkt atvinnulíf á öflugu velferðarkerfi og góðri menntun. Þetta er kjarni jafnaðarstefnunnar og að henni vil ég vinna.

Æskuárin

Ég er fæddur 23. apríl 1972 og ólst upp út í sveitasælunni á Álftanesi.
Þar var frábært að alast upp – einhvers konar sveit en stutt frá borginni. Þar tók ég virkan þátt í samfélaginu, var skáti og í stjórn ungmennafélagsins. Alltaf æfði ég þó fótbolta með KR þótt það krefðist langra strætóferða. Maður var svo eldheitur KR-ingur að það skipti engu máli! 

Ég var í Garðaskóla í Garðabæ og síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð og svo í sagnfræði við HÍ. Tók mér reyndar ársleyfi og fór í fisk á Bolungarvík og í sex mánaða bakpokareisu um A-Evrópu.

Fjölskyldan

Ég var í háskólapólitíkinni á sínum tíma og þar kynntist ég konunni minni – Herdísi Hallmarsdóttur lögmanni.  Við eigum tvö börn – Sigríði Maríu háskólanema og Hallmar Orra nema í Kvennaskólanum.
Við höfum mjög gaman af útiveru, vorum í hestunum á sínum tíma en núna eigum við hunda og þeir draga okkur af stað í göngutúra, útihlaup og fjallgöngur.

Frumkvöðlastarf og stjórnmál

Eftir menntaskóla lá leið mín í sagnfræði við Háskóla Íslands og háskólann í Cork á Írlandi þaðan sem ég lauk BA prófi.  Síðar lauk ég MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík.

Ég hef fjölbreytta starfsreynslu. Ég hef starfað við fjölmiðlun, íþróttahreyfinguna, stofnaði mitt eigið fyrirtæki og svo var ég kennari við viðskiptadeild HR um nokkurn tíma. Í HR lagði ég einnig stund á doktorsnám í frumkvöðlafræðum þar sem ég skoðaði sérstaklega fyrirtækjarekstur innflytjenda á Íslandi og  íslensk fyrirtæki sem störfuðu erlendis.  Síðar var ég yfirmaður sölu- og markaðsmála hjá Bláa Lóninu vegna vörusölu erlendis.

Árin 2009-2013 sat ég á Alþingi. Ég var m.a. varaformaður viðskipta-, efnahags- og skattanefnda þingsins ásamt því að gegna stöðu þingflokksformanns Samfylkingarinnar á krefjandi tímum.

Undanfarin ár hef ég starfað sem ráðgjafi við stefnumótun, stjórnun og sölu- og markaðsmál hjá Capacent. Unnið með fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum – sérstaklega aðila innan ferðageirans.

Við stöndum á tímamótum -bókin mín

Haustið 2012 ritaði ég bókina „Við stöndum á tímamótum“ sem fjallar um áskoranir og sóknarfæri í íslensku atvinnulífi. Mér fannst það mikilvægt að setja saman á einn stað mín hugðarefni í stjórnmálum.

Í bókinni fjalla ég um hvernig er hægt að efla atvinnulífið, skapa eftirsóknarverð störf og tryggja að hér á landi verði lífskjör sambærileg við það sem best gerist í nágrannalöndunum. Þannig verði gætt að mikilvægu samspili verðmætasköpunar og velferðarkerfis, svo tryggja megi jöfn tækifæri allra, án tillits til efnahags, stéttar eða stöðu.
Ég kynnti hugmyndir að nýrri atvinnustefnu þar sem umhverfisvernd og atvinnulíf haldast í hendur, þar sem áhersla er lögð á þekkingu og gæði frekar en magn, fjölda eða stærð. Þá fjallaði ég nokkuð um ferðaþjónustuna, mikilvægi þess að stýra álagi á náttúruna og flokkun áfangastaða.